Eyjólfur Brynjólfsson

Myndir og myndbönd úr safninu mínu

Evrópa okt-nóv 2015

Bárður hafði samband í maí 2015 og bauð okkur Steinu í ferð um Evrópu ásamt skemmtisiglingu um Miðjarðarhaf. Að sjálfsögðu þáðum við boðið, og skyldi lagt af stað í október. Hann skyldi sjá um allan kostnað við flugfargjöld, gistingu, bílaleigubíla, svo og skemmtisiglinguna.
Upphaflega stóð til að fara í siglingu frá Genoa, en sú ferð féll niður, og fyrir valinu varð ferð frá Feneyjum.
Við lögðum svo af stað 13. október, Þórir Örn skutlaði okkur eldsnemma í Hafnarfjörð, tókum Flugrútu frá Hótel Hafnarfirði til Keflavíkur, þaðan var farið með WOW til Berlínar.
Gistum við þar á Hótel Castell í þrjár nætur. Veðrið lék okkur illa í Berlín, rigning og hráslagi, ég kvefaðist meira að segja þar, og snýtti á mig frunsu sem fylgdi mér mest alla ferðina.
Frá Berlín var farið til Feneyja með millilendingu í Munchen, gistum eina nótt á Venice Resort, fengum okkur bílaleigubíl, og fórum þaðan til Bologne – löngu leiðina.
Við náðum að fara til Trieste og Padova, skemmtilegt stopp þar, og skruppum eitt augnablik inn í Slóveníu. Skuggi var þó yfir því að heimsækja Slóveníu, því á sama tíma og við gerðum þetta okkur til gamans, var flóttafólk frá stríðshrjáðum löndum að reyna að komast inn í Slóveníu að austanverðu.
Fórum þaðan til Florence, vorum þar nokkra daga og fórum í bíltúr út frá Florence, m.a. til San Marino og Pisa.
Þann 25. október fórum við um borð í glæsiskipið Costa Deliziosa. Upphaflega stóð til að skipið færi til Tyrklands, m.a. Constantinopolis, en ástandið talið ótryggt fyrir ferðafólk, og fallið frá því.
Skipið sigldi fyrst til Bari, þaðan til Corfu, þaðan til annarrar grískrar eyju, Cephalonia, svo til Piraeus (Aþenu). Þaðan var siglt til Möltu.
Síðan stóð til að fara til Sikileyjar, en veður hamlaði því, og var farið í land í Corigliano í stað þess. Þaðan lá leið til Svartfjallalands (Montenegro), svo Króatíu, og svo til baka til Feneyja.
Þar var staldrað við í nokkra daga, svo flogið til Berlínar. Til stóð að millilenda í Munchen á leið til Berlínar, en verkfall hjá starfsmönnum Lufthansa truflaði það. Okkur tókst með herkjum að komast í beint flug frá Feneyjum til Berlínar í tæka tíð. Þar gistum við yfir nóttina, flugum svo með WOW til Íslands 10. nóvember.

GSM A
GSM B
Coolpix 1
Coolpix 2
Coolpix 3
Coolpix 4
Coolpix 5
Coolpix 6