Eyjólfur Brynjólfsson

Myndir og myndbönd úr safninu mínu

Heimili

01 – Smyrilsvegur 28
02 – Grundargerði 6
03 – Melgerði 29
04 – Akurgerði 26
05 – Efstasund 46
06 – Engjasel 13
07 – Hrauntunga 23
08 – Blikanes 21
09 – Furubyggð 24
10 – Ásland 14

Fyrst eftir að við Rannveig fórum að búa saman, leigðum við í kjallaranum að Melgerði 29 í Kópavogi, en tengdapabbi bjó þar, og var með KMK prentsmiðjuna í bílskúrnum. Báðar stelpurnar, Bimma og Helga Lilja, komu í heiminn meðan við vorum þar. Þá var ég rétt að byrja að læra endurskoðun hjá Endurskoðunarskrifstofu Björns E. Árnasonar, Tjarnargötu 16.

Þaðan fluttum við í Akurgerði 26, en þar var húseigandi Sigríður, mamma Þórðar, eins af mínum æskuvinum.

Einn af mínum samstarfsmönnum á endurskoðunarstofunni var Valur Franklín, og hann og hans systkini fengu í arf (minnir mig), hús að Efstasundi 46. Valur bauð mér að leigja það hús, sem ég þáði. Binni Gísli kom í heiminn meðan við bjuggum þar.

Ég sótti svo um úthlutun frá Reykjavíkurbæ/borg þegar Seljahverfið var að fara af stað, og fékk úthlutað fyrst að Seljabraut 38, en þótti flottara að vera í Engjaseli í íbúð á tveimur hæðum, svo ég setti mig í samband við Má Gunnarsson sem þá var skrifstofustjóri hjá Byggingafulltrúa í Skúlatúni 2, og sótti um breytingu – og fékk úthlutun í Engjaseli 13. Þar var býsna skrautlegur hópur saman kominn til að byggja hús, þar voru meðeigendur m.a. Bjarni Dagur (fjölmiðlamaður), Laddi, Úlfar (bróðir Sævars, æskuvinar) og fleiri. Það mæddi mest á mér og Sigurði Ingólfssyni að koma húsinu upp. Sigurður starfaði hjá Byggingafulltrúa, og hann útvegaði nauðsynlega meistara á húsið, og útkoman úr því býsna skrautleg. Sem dæmi mán nefna að fyrsti pípulagningameistarinn var alkahólisti, og ég man að ég sótti hann í meðferðarheimili á Flókagötu til að koma honum til vinnu. Skolplögnin brast fljótlega eftir að við seldum í búðina. Hvorki Laddi, né Bjarni Dagur mættu þar að ráði til að leggja hönd á plóginn, lögðu lítinn sem engan pening fram, en við Sigurður áttum tvær efstu íbúðirnar, og því ekki um annað að ræða en byggja þeirra íbúðir til að komast þangað upp. Ýmsir ættingjar mínir og Rannveigar tóku þátt í að koma þessu upp, og pabbi dró mig um hverja helgi uppeftir eftir að íbúðin var uppsteypt.

Árið 1981 var ég búinn að koma mér býsna vel fyrir hjá bílaumboðinu Jöfur hf., og vildi komast í sérbýli. Við Rannveig skoðuðum húsið að Hrauntungu 23, ég féll fyrir hönnuninni, og við keyptum húsið, og létum Engjasel ganga upp í greiðslu. Rannveigu auðnaðist ekki að flytja í húsið, en Steinunn flutti seinna til mín þangað, og bæði Addi (Eyjólfur Karl) og Þórir Örn komu í heiminn meðan við bjuggum þar.

Þegar þar var komið var orðið nokkuð þröngt um okkur, og ég fór að svipast um eftir húsi eða lóð í Kópavogi til að stækka við okkur. Ég keypti lóð að Sunnubraut 54, og þá var heldur betur farið á flug. Á þessum tíma var ég heillaður ef Tudor húsum, og hafði pantað bæði bækur og teikningar til að kynna mér þann stíl. Ég fór með teikningar að einu húsinu sem mér fannst flott til Skúla Nordal, sem þá var bæjarverkfræðingur hjá Kópavogsbæ, og bað hann að aðlaga þær teikningar íslenskum stöðlum, sem hann gerði. Þegar áformin voru kynnt fyrir nágrönnum risu þeir allir upp á afturendann, Sigurður Helgason og Reynir Þorgrímsson höfðu sig mest í frammi. Þetta varð til þess að ekkert varð af framkvæmdum annað en jarðvinna – sem betur fer, sá ég eftirá. Ég náði svo að losa mig við lóðina löngu seinna upp í hús sem Helga Lilja keypti í Fjallalind.

En áður en að því kom skoðuðum við hús að Blikanesi 21, og eftir einhvern tíma frá því fyrst var skoðað, var húsið keypt af Oddi Thorarensen. Ekki skildi hann vel við okkur, skrúfaði niður spegla og gardínur osfrv.

Hér stendur til að koma upp myndum af húsunum sem ég hef búið í – hér eru komin flest þeirra – það nýjasta Ásland 14 í Mosfellssveitinni – sem við fengum afhent 8. júní 2006.

Blikanes 21
2015

Leave a Reply