Eyjólfur Brynjólfsson

Myndir og myndbönd úr safninu mínu

03 – Spítalavistin 1959

Um vor á árinu 1959 sá ég blóð renna út úr mér þegar ég var að pissa, og sagði mömmu og pabba frá því.
Þau trúðu mér ekki fyrst og létu mig pissa í kopp. Þá sannfærðust þau og fóru með mig til læknis, Ófeigur held ég að hann hafi heitað. Honum þótti ráðlegt að leggja mig inn á spítala, og stuttu seinna var ég sendur á barnadeild Landspítala.

Þar réð ríkjum á þessum tíma Kristbjörn Tryggvason yfirlæknir, ljúfur og góður við krakkana, og deildarhjúkrunarkona var Árnína, lágvaxin kona, ákveðin, og fannst mér hún stundum stjórna honum.
Dagmar hét önnur hjúkrunarkona, væntanlega næst Árnínu að tign, en hún var hvöss og hörð við börnin og vildi halda aga á okkur. Kannske hefur hún lært sitt fag í Þýskalandi. Á þessum tíma voru heimsóknartímar tvisvar í viku, á sunnudögum og fimmtudögum, og tímamörkum var stíft fylgt eftir. Mamma læddist hins vegar oft til mín aðra daga, gjarnan með Prins Pólo með sér. Hún lagði á sig ferðalag með strætó, og beið frammi á gangi þangað sem ég laumaðist til hennar.

Án þess að ég gerði mér grein fyrir því, var verið að vinna brautryðjendastarf á barnadeildinni með listmeðferð. Sigríður Björnsdóttir hafði þarna aðstöðu og kom til okkar og leyfði börnunum að mála, teikna, leika sér með kubba ofl. Sigríður var kölluð Sigga leikkona – ekki af því að hún væri leikkona, heldur af því að hún lék við okkur og leyfði krökkunum að leika sér saman á leikstofunni. Hún hvatti mig til að teikna og mála, og enn man ég að ég átti eftir að ljúka við mynd, sem hún vildi fá að hengja upp á vegg.

Ég var einna elstur á barnadeildinni, og litlu börnin sem þarna voru drógust oft til mín, trúlega af því þau söknuðu sinna foreldra og systkina. Þau lifðu ekki öll af, ég man m.a. eftir litlum strák sem hafði drukkið vítissóda, sem stundum kúrði hjá mér, en hann komst aldrei heim. Ég man hvað það fékk mikið á mig að heyra af þeim börnum sem dóu þarna, og þá var leikstofan hennar Siggu notuð sem bráðabirgða líkhús.

Ég var mest á stofu 8, ásamt tveimur öðrum strákum. Þeir sem lengst voru með mér voru annars vegar strákur sem lent hafði í dráttarvélarslysi, og missti fótinn – og hins vegar strákur sem var lagður inn á spítala af því að hann var í góðum holdum. Í þá daga var talið öruggt að feitir krakkar hlytu að vera veikir.

Við strákarnir sem vorum rólfærir, þvældust um allan spítalann þegar við gátum, m.a. út á þvottahúsið sem var í nærliggjandi byggingu. Þar starfaði þá maður að nafni Helgi, sem tók okkur alltaf vel, en hann var að flytja þvottinn á milli húsanna. Þessi Helgi var pabbi Lólóar, konunnar hans Halla, bróður pabba.

Við áttum að mæla okkur á hverjum morgni, og halda okkur í rúminu ef við vorum með hita. Oftar en einu sinni hristi ég mælinn niður í rúmlega 37 stig, svo ég þyrfti ekki að hanga í rúminu.

Þarna var á þessum tíma Víkingur H. Arnórsson, sem seinna varð yfirlæknir á barnadeildinni. Ég vissi alltaf hvenær eitthvað ætti að fara að krukka í mig, því daginn áður voru einu tilfellin sem Víkingur spjallaði við mig og reyndi að vera almennilegur.

Hjúkrunarkonurnar (aðrar en Dagmar) voru mjög góðar við okkur, sérstaklega man ég eftir einni sem var kölluð Gurra, og ég held ég hafi fundið mynd af henni, sem hér má sjá. Í þá daga voru einkennisbúningar þannig að auðvelt var að greina á milli hjúkrunarkvenna og gangastúlkna – og svo þeirra sem ég kallaði blóðsugurnar, en þeirra starf heitir nú meinatæknar. Hjúkrunarkonur voru með kappa og eina bláa tölu í kappanum fyrir hvert ár sem þær höfðu lokið í námi. Kyngreining var líka alveg á hreinu, karlmenn voru læknar, og konur í öðrum störfum.

Sumar gangastúlkurnar bjuggu uppi í risinu á spítalanum, tvær saman í herbergi. Við fórum stundum upp til þeirra í heimsókn. Þær voru ófeimnar og sprönguðu gjarnan um á nærfötum. Ég man hvað blóðið ólgaði í æðum og skrítnir straumar fóru um mig, augun á mér hafa sennilega staðið á stilkum, en þær virtust hafa gaman af þessu.
Eitt skiptið á sunnudegi í heimsóknartíma heyrðist taktfast bank ofan úr herbergjunum þeirra, og Árnína kom að spyrja hvað þetta væri. Ég sagðist halda að þær væru að steppa uppi, og hún rauk upp og stoppaði óskundann. Hún kom svo niður og staðfesti að þær hefðu verið að stunda steppdans og ég man að pabbi, sem var þarna í heimsóknartíma, var hissa á að ég skyldi átta mig á þessu.

Dúna frænka heimsótti mig og færði mér flugmódel, en á þessum tíma var sú dellan í algleymi hjá mér. Hún sagði mér seinna hvað hún hefði vorkennt mér, og að margir hefðu efast um að kæmi nokkurn tíma út af spítalanum.

Ég fékk líka heimsókn frá vandalausum, t.d. fékk ég einu sinni til mín Felix, en hann var veghefilsstjóri og vann með pabba hjá “bænum”, eins og Reykjavíkurborg var þá kölluð. Felix hlýtur að hafa vorkennt mér líka, því hann færði mér forláta leikfangabíl – 58 Ford Skyliner. Hann gekk fyrir rafhlöðum, var vírstýrður, hægt var að keyra hann áfram og afturábak, beygja – og láta toppinn fara ofan í skottið á honum. Þetta leikfang á ég enn í dag í upphaflega kassanum, þó kassin sé orðinn þreyttur (sjá myndir hér fyrir neðan).

Mamma tók einu sinni með sér konu sem var lækningamiðill, mig minnir að hún hafi heitað Ragnheiður. Sú settist við rúmið hjá mér og hvort sem það er henni að þakka eða ekki, þá er meira að segja tekið fram í læknaskýrslu, að ég hafi náð mér ótrúlega fljótt eftir stærsta uppskurðinn.

Ýmsar skoðanir og aðgerðir voru gerðar á mér þarna, m.a. stærsti holdskurður sem gerður hafði verið á sjúklingi á barnadeild fram að þessum tíma.

Í minningunni finnst mér að ég hafi verið sprautaður hundrað sinnum, oftast í lærin framanverð. Verstu sprauturnar þóttu mér vera fyrir röntgen myndatökur, stórar hlussur með breiðum nálum. Þær voru misjafnlega lagnar við sprautun stúlkurnar, þær óreyndu fóru hægt og reyndu að vanda sig, sem oftast þýddi meiri sársauki. En þær vönu, eins og Dagmar, þær tóku þetta með trukki, og sársaukinn minni og skammvinnari fyrir vikið. Framan af var ég mest stunginn í vinstra lærið, sem sneri fram í stofuna. Svo man ég eftir því, að þeim fannst ekki pláss fyrir nýja stungu þeim megin, og fóru þá að nota hægra lærið.

Stundum var mér gefið blóð og vökvi í æð, og eitt sinn eftir aðgerð tókst ekki betur til við nálarstunguna en það, að það blæddi inn á handlegginn – og það svo mikið, að olnboginn festist. Handleggurinn upp að öxl var litfagur, sérstaklega þegar frá leið. Ég man að mér fannst voða gaman að því þegar læknar og hjúkrunarkonur voru að reyna að rétta úr handleggnum – en allt jafnaði þetta sig. Ég man líka eftir því að ég einhvern tíma þegar ég vaknaði upp eftir uppskurð var mér gefið eitthvert deyfilyf. Þetta lyf virkaði þannig að ég var í einhverju rússi – og vildi meira, en hjúkkurnar voru ekki tilbúnar, en gáfu mér þó eitthvað platlyf.

Ég var stundum spurður hvort þetta hefði ekki verið vont, en mesti sársaukinn sem ég man eftir var þegar verið var að draga út þvagleiðara, en hann virtist hálfgróinn fastur. Annað fannst mér ekki sárt – svo ég muni.

Meinið mun hafa verið það að leiðarar frá nýru að þvagblöðru voru ekki með rétta afstöðu til blöðrunnar, þannig að þeir lokuðu ekki fyrir bakflæði frá blöðrunni. Annað nýrað hefur væntanlega eyðilagst þegar ég var mjög ungur, og fallið og gróið við þvagblöðruna. Það var svo byrjað að éta sig inn í þvagblöðruna, og þá byrjaði að blæða.

Ég útvegaði mér afrit af sjúkraskýrslum, sem sjá má hér fyrir neðan, og þar kemur það helsta fram af því sem framkvæmt var.

Leave a Reply