Eyjólfur Brynjólfsson

Myndir og myndbönd úr safninu mínu

03 – 58 Ford

Ég verð stúdent frá Versló 1966, en var enn að vinna hjá Vélamiðstöðinni, keyrði Benz sendibíl, sex sæta með þili aftan við sætin og opnu rými þar fyrir aftan. Talsverð yfirvinna fylgdi þeirri vinnu, m.a. tilheyrandi Höfða sem var verið að ljúka við að standsetja, og veisluhöld sem þar voru haldin oft að kvöldi. Þá vorum við tveir látnir flytja borð í Höfða fyrir veislu, og til baka aftur eftir veislu, en seinna var svo sérsmíðað veisluborð komið þangað, og þá datt þessi vinna út. En ég gat safnað mér einhverjum pening og árið 1967 kaup ég þennan bíl af Þórði Þórðarsyni lækni og staðgreiddi fyrir hann 40 þúsund krónur. Þórður bjó við Miklubraut, og ég hafði oft rekið augun í hann þegar ég fór þarf fram hjá. Þórður sérpantaði hann með því sem kallað var í daglegu tali “Police Special” 352 vél, eða Interceptor V-8 Thunderbird Special, og var þessi vél svört og R merkt í serial númeri. Drif var einnig sérpantað, 2.92:1 að mig minnir. Hann var sá eini sem ég veit til að kom hingað á 15 tommu felgum og því með litlum hjólkoppum.
Hann var nokkuð ryðgaður þegar ég fékk hann, sílsar ónýtir, frambretti ofl. Ég keypti ný bretti, lét smíða nýja sílsa í Gretti, og fékk mann á Sogaveginum (sem pabbi þekkti) til að sjóða í gólfið á honum, stafinn undir hvalbak ofl. Seinna splæsti ég í bláa málningu og lét sprauta hann. Á þeim tíma var hægt að leigja sér aðstöðu á neðri hæð einbýlishúss við Meðalbraut í Kópavogi, en þar voru græjur fyrir hendi. Ég man ekki nafnið á þeim sem málaði, en endilega þurfti einhver kunningi hans að koma með brennivín á staðinn og hella hann blindfullan. Málverkið lukkaðist svo illa að hann þurfti að mála hann aftur daginn eftir.
Á sætunum voru “cover” sem ég tók af, og svo fékk ég lánaða saumavél í gegnum Stjána mág, keypti svart vinyl efni, masonite plötur í Birgðastöð Reykjavíkur, sagaði þær á Trésmíðastofunni, og saumaði klæðningu á öll hurðaspjöldin.
Mjög skömmu eftir þetta var ég á leið til Rannveigar á Fæðingarheimilið, Helga Lilja nýfædd, og í hringtorginu sem þá var á horninu á Miklubraut/Snorrabraut renndi sér á mig nýlegur Volvo með númerinu M-333 og beyglaði hjá mér frambrettið hægra megin, stefnuljósaumgjörðina ofl. Bílstjórinn var vel við aldur og Rannveig sá áreksturinn úr glugganum á Fæðingarheimilinu og ekki kát fyrir mína hönd. Ég fékk brettið viðgert og málað, með málningu úr sömu dósinni og bíllinn hafði verið sprautaður, en sjá má á myndum að liturinn náðist ekki réttur.
Í nóvember 1968 byrjaði ég svo nám í endurskoðun, og hafði ekki efni á að reka bílinn og leigði fyrir hann skúr niður undir læk við Fífuhvammsveg, rök og léleg geymsla. Sverrir bróðir keypti hann svo af mér, og ég hjálpaði honum við að selja hann. Sá sem keypti var Hilmar lögga, sem m.a. kenndi Kjartani og Binna Gísla fyrir bílpróf.

3 – 58 Ford