Eyjólfur Brynjólfsson

Myndir og myndbönd úr safninu mínu

02 – 56 Ford

2 – 56 Ford

Við Bibbi keyptum hann saman, og til marks um hvað maður var vitlaus á þessum árum, þá var það ég sem leitaði uppi eigandann og bauð honum staðgreiðsluverð fyrir bílinn – 70 þúsund. Eigandinn var Gúndi “Baskerville”, og fór mikið fyrir honum á rúntinum á þessum árum. Á undan þessum bíl átti hann 55 Mercury, tveggja dyra, og grillið af þeim bíl fór á minn 55 Mercury löngu seinna. Gúndi var vinur Einars Gíslasonar (ET – flutningafyrirtæki) á þessum tíma, en ég minnist á hann í kaflanum um 34 Victoria. Gúndi vann hjá Vélamiðstöð Reykjavíkur, og ég hjá Birgðastöð Reykjavíkur á sama tíma.
Hann virtist eiga erfitt með að vera heiðarlegur, plataði mig til að afgreiða heilt topplyklasett út á beiðni fyrir skralli, var svo á endanum látinn fara þegar hann var staðinn að því að stela bensíni af öskubílunum sem voru geymdir í portinu yfir nótt. Hann reyndi seinna að selja mér svartan 58 Mercury, tveggja dyra, og þuldi þá upp úr sér sömu romsuna og þegar hann var að selja mér 56 Fordinn þennan. Eitt af þeim atriðum sem hann taldi upp sem ég man enn var “allt nýtt í stýrismaskínunni”. Reyndari menn en ég vissu að stýrismaskínur í amerískum bílum á þessum árum biluðu aldrei.
Þessi bíll var með Thunderbird mótor, sem var í raun ekkert merkilegur, heldur 292 Y blokk. Þessar vélar voru frægar fyrir að tapa olíuþrýstingi upp á rocker armana, og Gúndi hafði reddað því með því að bora göt á ventlalokin, og svo fylgdi smurkanna með til að gluða olíu þar inn. Við seldum hann svo Þórði sem var úr Akurgerðinu og einn af sexmenningunum í klíkunni okkar.
Það merkilegasta við þennan bíl var kannske það, að eitt skiptið þegar við klíkan fórum í Silfurtunglið, var ég bílstjórinn, og á þessum bíl. Á ballinu var Rannveig, og væntanlega Gúddý, Petra og Svaný með henni. Einhverjar þeirra fengust með okkur í bíltúr og þar hitti ég Rannveigu fyrst. Þetta kvöld varð til hugtakið “sénsbeygja”, því Rannveig sat í framsætinu milli mín og Þórðar, og ég tók viljandi krappar hægri beygjur til að fá hana nær mér.