Eyjólfur Brynjólfsson

Myndir og myndbönd úr safninu mínu

4 – 1955 Mercury

From Fornbílar – video
55 Mercury

Minn fyrsti bíll var 53 Mercury, keyptur í Sölunefnd varnarliðseigna, sem þá var til húsa í Skúlatúni. 55 Mercury tveggja dyra hardtop var hér á götunum þá, svartur með rauðbleikum (Tropical Rose) topp og að auki með þann lit undir hliðarrúðum og neðst á afturbrettum (og hlífum). Sá var fyrst í eigu Kjartans Sveinssonar sem teiknaði fjölmörg hús hér á höfuðborgarsvæðinu og víðar.

Ég var áskrifandi að Hemmings og fylgdist með framboði á Mercury, og hnaut þar um auglýsingu frá Tom Police. Ég hringdi í hann og fékk svör við þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann, ákvað að slá til og keypti gripinn.

Hann kom um haustið 1985 til landsins, gámurinn fluttur í Hafnarfjörð að höfuðstöðvum Dvergs ehf., þar sem ég tók á móti honum. Það byrjaði ekki vel, um leið og hann var tekinn úr gámnum kom í ljós að hann var bremsulaus, og glussi bunaði út við afturhjól. Ég þurfti að nota Vicegrip töng á bremsuslöngu, og tókst að koma honum í Jöfur þannig.

Ég keyrði hann eitthvað eins og hann var þegar hann kom, og sumir hefðu líklega sett smá sponna í ryð á frambrettum, og keyrt hann þannig áfram, en það dugði mér ekki, og hófst þá sláturtíð. Þegar búið var að rífa hann niður, kom í ljós að boddý var mun verra en það leit út fyrir að vera, og þurfti talsverða endursmíði, t.d. á afturbrettum. Þegar því var lokið fór hann til Magga sprautara, og þaðan heim í skúr í Hrauntungu. Þar dundaði ég við að koma honum saman, Ingólfur Proppe sá um krómvinnuna, og stóð sig bara vel. Bíllinn kom með 56 árgerðar grilli og afturljósum, en ég náði í grill af 55 árgerðar bíl sem lá við Hafralæk. Sá bíll hafði verið í eigu Gúnda “Baskerville”. Gúndi átti hann á undan 56 Ford, sem ég keypti af honum í félagi með Bibba. Ég pantaði í hann haug af varahlutum, svo og klæðningu, en Auðunn í Kópavogi sá um hana fyrir mig.