Eyjólfur Brynjólfsson

Myndir og myndbönd úr safninu mínu

01 – 53 Mercury

1 – 53 Mercury

Það var einhverju áður en ég keypti hann þegar ég var að vinna í “bæjarvinnunni” í Skrúðgarðinum í Laugardal, að ég hjólaði fram á einn svona bíl frá Varnarliðinu, en sá hafði greinilega bilað á Grensásveginum, út undir Miklubraut. Mig minnir að hann hafi verið öxulbrotinn og að annað afturhjólið hafi verið utar en það átti að vera. Sá var tveggja dyra hardtop, rauðbleikur með svörtum topp og hlífum við afturhjól. Hann var skömmu seinna seldur í Sölunefnd Varnarliðseigna. Þá höfðu Bandaríkjamenn greinilega híft hann upp á vörubílspall með því að setja stroffu inn um hliðarrúðurnar. Eðlilega krumpaðist toppurinn, en mig minnir að Pétur nokkur sem kallaður var Pétur í Teppi hafi keypt hann. Hann rétti toppinn, sprautaði bílinn bláan og með hvítan topp. Þessi Pétur átti fleiri áberandi bíla seinna (ég man eftir 55 Mercury og 59 Ford), og flestir málaðir í sama lit, bláir með hvítum toppi.
Þegar ég var kominn á bílprófsaldurinn fór ég að vakta Sölunefndina, sem þá var til húsa að Skúlatúni (trúlega númer 4). Þegar þessi bíll kom þar, gerði ég tilboð í hann, en þegar tilboðin voru lesin upp, kom í ljós að ég var þriðji í röðinni (að mig minnir). Þetta var trúlega undir lok júnímánaðar og skömmu seinna lokaði Sölunefndin vegna sumarleyfa og ég orðinn daufur, en samt vongóður. Svo var haft samband við mig eftir að “nefndin” opnaði aftur, og mér boðinn bíllinn. Þá kom í ljós að hann fór ekki í gang, sem trúlega fældi frá þá sem ofar voru, en ég lét það ekkert trufla mig.
Ég man ekki nákvæmlega hvað það var sem var bilað, en mig minnir að við pabbi höfum fundið lausan vír við háspennukefli, eða eitthvað álíka ómerkilegt, og hann datt í gang – og flathead mótorinn malaði eins og köttur. Fyrst eftir að ég keypti hann var hann innst inni í bílskúrnum í Grundó, og pabba Zodiac aftan við, og var næstum hægt að loka bílskúrshurðinni. Þar dundaði ég í honum, reif úr honum mælaborðið, lét sprauta það svart og hvítt, fékk Alla til að klæða sætin og hurðaspjöldin með hvítu og svörtu vinyl (þeim sama og klæddi 34 Victoria og 59 Thunderbird). Ég teiknaði klæðningarmunstrið fyrir Alla, eins og ég gerði svo seinna þegar kom að 34 Victoria.
Pabbi setti svo í hann handfang farþegamegin að framan, og lá vír frá því handfangi yfir á bremsupedalann, og fór svo að kenna mér að keyra, en hann hafði ökukennararéttindi. Ég náði prófinu í fyrstu tilraun og beint út að keyra.
Ég keyrði hann á mörg sveitaböll á þessum tíma, og á rúntinn, og aldrei klikkaði hann. Hann losaði þó gjarnan hljóðkútinn á malarvegunum, og drundi skemmtilega í honum. Fyrsta árið var býsna skrautlegt samt, mér tókst að renna í hálku aftan á Volkswagen sem einhverjar ungar stelpur voru á, en þegar ég var á þessu þroskastigi, þótti voða gaman að elta stelpur sem voru að rúnta í miðbænum. Á rúntinum voru sömu bílarnir og sama fólkið að labba, kvöld eftir kvöld, og þar á meðal tvær (og stundum voru þær þrjár) stelpur sem hlógu mikið að okkur, bara til að stríða okkur. Seinna kynntist ég þessum stelpum, en þær voru Petra og Gúddý (og stundum Svaný), og voru allar vinkonur Rannveigar. Í eitt skiptið fipaðist mér við aksturinn, var þá fyrir framan Hressingarskálann þegar við sáum þær, og þær okkur, og þær hlógu ógurlega. Ég rann aftan á 55 Ford (tveggja dyra, grænn og hvítur), og sá hafði líka verið mikið á rúntinum á þessum tíma. Bílstjórinn kom út, strákur á svipuðum aldri og þroskastigi og við, brosti bara, því ekkert sá á bílunum okkar. Þetta var áður en ég kynntist Rannveigu, og ég man að þær sendu okkur kveðju í þættinum “Lög unga fólksins”, og í lok kveðjunnar var lesið “Tvær hláturmildar”.
Fljótlega eftir að hann kom á götuna fór ég á honum austur í Vík í Mýrdal, og Einar Þorgeirsson (einn af sexmenningunum) þá með mér. Við gistum í tjaldi í Vík og skoðuðum okkur um. Við ákváðum að fara á Reynisfjallið, og lögðum af stað upp. Brekkan var brött, grýtt, holótt, og krappar beygjur. Ég var kominn nokkuð ofarlega í fjallið og var í krappri vinstri beygju þegar afturhjól vinstra megin fór upp á stein, hann spólaði steininum í burtu, en þegar hann skall niður, brotnaði hjöruliður. Ég setti hann í handbresmu, og við fórum út að skoða. Við sáum fljótlega að hann var illa staðsettur, og ætluðum okkur að snúa honum við þarna uppi. Í kjánaskap tók ég hann úr handbremsu án þess að sitja undir stýri, og hann fór að renna afturábak. Sem betur fer voru staurar og vírar til að stoppa hann. Svo kom þar einhver að á traktor og dró hann þversum þangað til hann sneri rétt, og ég lét hann renna niður brekkuna. Ég fór svo í Kaupfélagið og pantaði hjöruliðinn og biðum við í tjaldinu í nokkra dag eftir honum. Þegar hjöruliðurnn kom loksins hleyptu okkur inn á verkstæði Kaupfélagsins vinveittir náungar sem þar störfuðu til að skipta um liðinn og hjálpuðu okkur við það. Við flýttum okkur svo í burtu og gistum á Laugarvatni í bakaleiðinni, en Bogga (systir Einars) var þá að vinna þar, ásamt Helgu Eyjólfs (úr Akurgerðinu) og annari vinkonu þeirra úr Akurgerði.
Það versta sem kom þó fyrir var þegar hann varð bensínlaus hjá okkur, rétt við Sundlaugarnar gömlu. Við vorum að ýta honum aftur á bak til að fara af götunni, og tókst svo illa til að hurðin bílstjóramegin opnaðist upp á gátt og fór á steyptan “polla” og beyglaðist leiðinlega. Það var svo pabbi sem sagaði botninn á hurðinni og var raunar tiltölulega auðvelt að rétta hana eftir það.
Sævar keypti hann svo af mér og stóð hann sig líka vel hjá honum.
Eftir að Sævar seldi hann frétti ég (hjá Jóni Sigurðssyni “Comet”) að búið væri að setja í hann toppventlavél, en svo fylgdist ég ekki meir með honum.