Eyjólfur Brynjólfsson

Myndir og myndbönd úr safninu mínu

6 – 1959 Plymouth Fury

59 Plymouth Fury
From Fornbílar – video

Emil Elger Vetter hafði átt hann frá upphafi, augljóslega dekrað við hann alla tíð, og haldið honum í sínu upphaflega standi. Þannig var hann þegar Henry fann hann fyrir mig, og þá var hann kominn til Florida. Henry (Hinrik) þessi er Íslendingur búsettur þar, og það var ábyggilega Siggi Harðar í SH bílaleigunni (sem þá var á Nýbýlavegi), sem kom mér í samband við hann.

Bíllinn var þá hjá Sunshine State Import Export, og Thomas Eichloff sá sem ég kaupi hann af. Endanlegt verð var USD 11.500, eða þúsund dollurum undir auglýstu verði. Hann er kominn heim í september 1987, og stóðst allar mínar væntingar. Hann var með upprunalegu lakki og klæðningu, nema hvað hluti framsætis hafði verið klæddur einhvern tíma. Takkaskiptur og draumur í akstri, hurðar féllu eins og þær eiga og með því hljóði og tilfinningu sem erfitt er að ná í uppgerðum bílum. Emil hafði sett undir hann “Glasspack” hljóðkúta sem gáfu djúpan hljóm. Ég keyrði hann oft í ferðum Fornbílaklúbbsins, og rúntaði dálítið á honum líka. Hann var einn þriggja bíla sem ég átti á bílasýningu klúbbsins í Laugardalshöllinni 1989.

Hrægömmum tókst að ná honum af mér þegar Asiaco ævintýrinu lauk, og komst hann þá í hendur fyrrverandi eigenda þess félags. Sá var þá farinn að steikja hamborgara undir merki MacDonald, og stundum sást bíllinn standa þar fyrir utan.

Friðrik Þór Friðriksson fékk hann eftir það í sínar hendur, og skyldi hann notaður í myndina Djöflaeyjan. Djöflaeyjan er bók, skrifuð af Einari Kárasyni, um ævi bræðranna Robba og Bóbó. Þeir bjuggu á Holtinu í húsi ömmu sinnar og (stjúp)afa, örskammt frá Smyrilsvegi 28 þar sem ég fæddist. Amman var Jósefína Nauthól og afinn kallaður Dóri fiskur. Dóri var einn aðal hvatamaður að stofnun Þróttar. Það að Friðrik valdi þennan bíl var ekki af því að Bóbó hefði átt svona bíl, því hann átti 56 Chevrolet, bláan og hvítan ef ég man rétt. Friðrik lét sulla yfir hann rauðri málningu, trúlega hefur hann myndast betur þannig. Illa þótti mér farið með hann á eignarhaldstíma Friðriks, fyrir og meðan á myndatöku stóð, og ekki síst á eftir. Hann stóð úti á Granda um tíma á loftlausu dekki og drabbaðist þar niður.

Nú er þó að sjá að hann sé í góðum höndum, og vel um hann hugsað.

Ég hef stundum hugsað, hvaða einn bíl myndi ég helst vilja eiga í dag af þeim sem ég átti, og trúlega væri það þessi, eins og hann var þegar hann kom – en kannske er það af því að ég seldi hann ekki, heldur var hann tekinn af mér.