Eyjólfur Brynjólfsson

Myndir og myndbönd úr safninu mínu

02 – flugdellan

Flugdellan

https://goo.gl/photos/sZXBWpGyGuaesXY89

Á undan bíladellunni var flugdellan allsráðandi hjá mér. Pabbi var haldinn þeirri dellu, og fór með okkur á flugdaga á Reykjavíkurflugvelli og stundum bíltúr upp á Sandskeið að fylgjast með svifflugi. Dúna sagði mér að á stríðsárunum hefði hann alltaf verið “að góna upp í loftið” og ef heyrst hefði í flugvél þegar hann var inni við, hefði hann henst út í glugga eða út fyrir hús. Ekki hefur skemmt fyrir honum að Reykjavíkurflugvöllur var herflugvöllur þar sem voru vélar frá breska flughernum og þeim norska. Einnig var flugvöllurinn nýttur til millilendingar – og oft þétt setinn flugvélum á leið frá Bandaríkjunum til Evrópu, til þátttöku í seinni heimsstyrjöldinni.

Á fermingaraldrinum reyndi ég oft að komast inn á Reykjavíkurflugvöll, en þá var hlið skammt frá þar sem hótelið var byggt seinna, og í því hliði lögregluþjónn. Aldrei hleypti hann okkur strákunum inn, en þá brugðum við á það ráð að hjóla frá Smáíbúðahverfinu í Öskjuhlíðina, þar skriðum við undir girðingu og laumuðumst þangað sem Þytur hafði aðstöðu, skammt frá gamla flugturninum.

Þar fylgdist ég með flugvélum og þá voru þar nokkrir Piper Cub og langflestir atvinnuflugmenn okkar lærðu á þannig vélar á þessum tíma.

Eitthvert skiptið sem ég var þar að fylgjast með kallaði einhver ungur maður til okkar „strákar, komiði með vélina hingað að tanknum“. Við guttarnir vorum seinir að átta okkur á því hvernig við ættum að flytja flugvél að bensíndælu, en hann sýndi okkur handfang aftur undir stéli, og Cub svo létt, að auðvelt var að draga hana að dælunni.

Ein þeirra véla sem við fylgdumst með var einmitt þessi vél – TF KAK. Það glampaði ekki á hana þá eins og nú, en fyrir fáum árum var hún öll rifin í frumeiningar og gerð upp af nokkrum eldri flugmönnum, sem flestir höfðu lært að fljúga á þessari vél.

Þeir sýndu mér eikarbita úr vængnum sem þeir skiptu út, en þar kom fram vottun gæðaeftirlitsmanns með dagsetningunni 12-24-1945, eða sex dögum eftir að ég fæðist.

Svo var það föstudaginn 3. júní 2016 að Frantz (maður sem ég kynntist vegna vinnu fyrir Grant Thornton) hringdi í mig, og spurði hvort ég vildi ekki fara í flugtúr. Ég hélt það nú, og flugmaðurinn enginn annar en Magnús Norðdahl fyrrum flugstjóri hjá Flugleiðum, og einn fremsti listflugsmaður Íslands. Magnús er 88 ára, enn í fullu fjöri og fór létt með að fljúga TF-KAK, eða “Kökunni”. Veðrið var frábært, logn og sólskin, einn allra besti dagur ársins á höfuðborgarsvæðinu. Ég mætti um áttaleytið um kvöldið á Tungubakkaflugvöll í Mosfellssveit, Magnús og Frantz komu skömmu seinna. Kakan er nánast jafngömul mér, en endurbyggð frá grunni nýlega, og leit mun betur út nú en þegar ég var að sniglast á Reykjavíkurflugvelli um fermingaraldurinn. Magnús tók fljótlega stefnuna á Kistufell í Esjunni, sagðist nota Esjuna til að finna uppstreymi til að hjálpa 65 hestafla mótornum við að koma okkur í hæð. Hann fór það nálægt að mér fannst ég gæti teygt mig í snjóinn og hnoðað snjóbolta. Við flugum að Kambshorni sem virkaði mun hrikalegra en frá jörðu niðri, snerum við rétt vestar og fórum austur með Esjunni sunnanverðri. Við fórum mest í 3 þúsund fetin og vorum um það bil hálftíma á flugi. Ég reyndi að ná videomyndum, sumar tókust ágætlega, en verst að fókusinn var ekki í lagi þegar við flugum yfir Áslandið. Magnús tók nokkrar krappar listflugsbeygjur, aðvaraði mig samt áður, en mér varð ekkert flökurt eða meint af. Ég fékk að taka í stýrið (stýrisstöng) og draumurinn um að fljúga Piper Cub varð loks að veruleika, rúmlega 55 árum frá því að ég laumaðist undir girðinguna í Öskjuhlíð niður á flugvöll.
13. júní 2016 hringdi Frantz aftur, og aftur hitti ég hann og Magnús Norðdahl við Tungubakkaflugvöll, en nú var beinlínis markmiðið að leyfa mér að fljúga. Veðrið var ekki alveg eins fallegt og í fyrstu ferðinni, en ég hringsólaði út að Kjalarnesi, yfir Mosfellsbæ, hring um Úlfarsfellið, upp í Mosfellsdal og víðar undir leiðsögn Magnúsar.
Alls var ég um hálftíma einn við stjórnina, og naut þess í botn. Frantz sagðist endilega vilja að ég tæki sólóprófið á þessa vél, og að dótturdóttir hans hefði flugkennararéttindi, og að hann myndi fá hana til að skrifa upp á réttindin, en að Magnús myndi kenna mér.
Þriðja skiptið var svo 11. júlí, Magnús hringdi, og ég skaust niður á flugvöll, fórum í loftið rúmlega átta, ég flaug sjálfur ca 20 mín. Ljómandi veður.
Fjórða skiptið var svo 18. júlí, frábært veður þann daginn. Sneri henni í gang sjálfur og við fórum í loftið um 20:15, fórum upp með Esju í vesturátt, snerum svo upp í Mosfellsdalinn, flugum þar vítt og breitt, ég einn við stjórnvölinn um það bil þrjú korter, nú alveg afslappaður og leið vel undir stýri(sstöng). Lenti nánast án afskipta Magnúsar, þó hann væri til taks, hann gaf svo í botn þegar við lentum og fórum aftur í loftið.
8. ágúst 2016 hringdi Frantz um áttaleytið, þá kominn til landsins eftir ferðalag um Þýskaland, og bauð mér í flug. Magnús Norðdahl var enn fenginn til að kenna mér, og við fórum í loftið um níuleytið í frábæru veðri og vorum tæpan hálftíma á lofti, þar af hef ég trúlega verið einn við stýrið um 20 mínútur. Ég tók stutt viðtal við Magnús vegna flugsýningar sem hann tók þátt í á þessari sömu vél í ágúst 1946 á tíu ára afmæli Svifflugfélagsins. Leitaði ég upplýsinga á timarit.is og komst að því að þetta var sunnudagurinn 18. ágúst 1946.
Sjötta skiptið í flug kom svo einmitt 18. ágúst 2016, eða nákvæmlega sjötíu árum eftir að flugsýningin var. Maggi hringdi um áttaleytið, við vorum smá stund að fikta við talstöðina, fórum svo í loftið og vorum rétt rúman hálftíma á flugi, Maggi tók hana í loftið, ég flaug einn nánast allan tímann, tók þverlegg og lokastefnu, en hann tók svo við síðustu fetin.
Sjöunda skiptið var svo daginn eftir, 19. ágúst 2016. Ljómandi veður, vestanvindur. Fórum í loftið rúmlega átta, en áður var ég búinn að hreinsa af henni flugnaklístur og sót. Magnús Norðdahl með mér að vanda, vorum rúmlega þrjú korter í loftinu. Hann lét mig æfa ýmsar beygjur og sveiflur upp og niður. Var sjálfur við stýrið mest af þessum tíma, hann lenti þó.
6. september 2016 var enn einn góðviðrisdagur ársins, þó svalur framan af. Magnús Norðdahl hringdi í mig um hálfsexleytið, og stakk upp á að við myndum skella okkur í loftið. Ég var að passa hvolpinn hans Þóris, hringdi í Þóri sem kom fljótlega, ég sótti Magga, og við fórum á Tungubakka. Við fórum í loftið kl. 18.15, ég tók við henni um leið og hún sleppti hjólum, flaug mest yfir Mosfellsdalnum, og Maggi lét mig taka beygjur og vinna gegn þeim með hliðarstýrinu, fara bæði í beygjur, dýfur og klifra í beygju ofl. – og fyrst og fremst fá mig til að vera slakur undir stýri og halda ekki of fast í stöngina. Flugum yfir bæinn í lokin og út á sundin. Lentum rétt rúmum hálftíma seinna, fyrst snertilending þó.
Níunda ferðin varð svo þann 21. september 2016. Magnús hringdi í mig upp úr hádeginu, við mættum rúmlega hálffjögur á Tungubakka. Smá stund tók að koma henni út úr skýli, búið var að setja hana inn í horn, og aðra vél fyrir framan. Það var nokkuð hvasst, Magnús lét mig “taxera” út á vesturenda brautarinnar, og ég sá sjálfur um að koma henni í loftið, fórum í loftið kl. 16.00. Við fórum inn yfir Mosfellsdalinn, býsna órólegt, sterkur vindur af Esjunni. Hún hoppaði duglega, og tommaði varla áfram á móti vindi. En gaman var þetta, og ég lenti sjálfur, þrátt fyrir hvassviðrið, en veðrið versnaði hratt á þeim 25 mínútum sem við vorum í loftinu. Steina var í göngutúr með kíki með í för, og fylgdist með okkur, án þess að ég yrði hennar var, enda hafði ég nóg að gera að stýra.
Haustið 2016 búið að vera sérlega fallegt og veður milt, og 27. september með fallegri haustdögum. Magnús Norðdahl hringdi og dreif mig út á Tungubakka, þar sem við vorum komnir rúmlega fjögur. Við þurftum að færa aðra vél út meðan við fórum í flugtúr, en byrjuðum samt á að fylla framtankinn á henni. Þetta var mín tíunda ferð, nú fékk ég að lenda þrisvar og taka jafn oft á loft, auk þess að prófa beygjur, klifur – og “stolla”. Við vorum um þrjú korter á flugi. En í dag fékk ég þær frétti frá flugskólanum Geirfugli, að “Sólópróf” er ekki til lengur, þannig að ef ég ætla að geta flogið einn, þarf að klára einkaflugmannspróf. Samkvæmt þeirra verðskrá er kostnaður við það a.m.k. ein og hálfmilljón, svo ekki er líklegt að ég haldi áfram. 
Ellefta skiptið í loftið var svo 29. september 2016. Enn einn góðviðrisdagur, norðlæg átt, bjart og fallegt. Við Magnús vorum mættir um fjögur. Fórum í loftið 16,20 og vorum 35 mínútur í loftinu. Ég fékk að æfa lendingar og flugtak. Talsverð gola og hliðarvindur á brautina. Fórum fyrst inn yfir Grímansfellið að æfa beygjur ofl. Flaug yfir Ásland á bakaleið og sá að Bimma var komin. Hún, Dóri og Rannveig María heima þegar ég kom þangað, en útför Ingu ömmu var daginn eftir.

Fleiri urðu ferðirnar ekki. Frantz vildi gefa mér 10 prósenta hlut í “Kökunni”, en ég skynjaði að umsjón með fjármálum og bókhaldi myndi fylgja gjöfinni, auk þess að taka þátt í rekstri – en henni yrði lítið sem ekkert flogið. Því afþakkaði ég boðið.

En ég er búinn að koma mér upp flughermi í tölvunni heima (Microsoft Flight Simulater X og síðar X-Plane10 og 11) og þremur tölvuskjám, ásamt tilheyrandi stýripinna, pedulum osfrv., til að halda áfram að fljúga og hef “flogið” allmörgum flugvélum úr skrifstofustólnum heima. En það er búið að vera ævintýri að fá að fljúga í Piper Cub sem er jafn gömul mér – og hvað þá fá að fljúga henni sjálfur.