Eyjólfur Brynjólfsson

Myndir og myndbönd úr safninu mínu

01 – Um höfundinn

Fæddur á Gímsstaðaholtinu á háaloftinu í húsinu hans afa að Smyrilsvegi 28. Grímsstaðaholtið þótti ekki fínt hverfi í þá dag, snobbhverfi í dag.
Gekk í Melaskólann fyrstu skólaárin, en eftir að við fluttum í Smáíbúðahverfið 14. nóvember 1953 gekk ég fyrst í Laugarnesskólann – svo Háagerðisskólann og Breiðagerðisskólann þegar þeir voru tilbúnir, Víkingsheimilið og svo Réttarholtsskólann, en þar var tekið gagnfræðapróf. Þaðan lá leiðin í Verslunarskóla Íslands, lauk þaðan stúdentsprófi 1966.
Vann í unglingavinnu, fór meðal annars tvö sumur í búðir að Úlfljótsvatni, sem þá voru á vegum unglingavinnunnar. Þar réð þá ríkjum Björgvin Magnússon, faðir Eddu Björgvins.
Í jólafríum á Versló tímanum vann ég oft í Hamborg, Helena systir reddaði því.
Vann í Garðyrkjunni og skrúðgarðinum í Laugardal, í Grjótnámi Reykjavíkur og Malbikunarstöðinni með Verslunarskóla, og hjá Birgðastöð Reykjavíkur. Keyrði sendibíl í eigu Borgarinnar sem Trésmíðaverkstæði bæjarins rak þar til ég fékk vinnu við endurskoðun árið 1968.
Pabbi átti heiðurinn af því að koma mér að hjá Borginni – eða Bænum eins og það var kallað þá.
Byrjaði nám í endurskoðun í nóvember 1968 hjá Endurskoðunarskrifstofu Björns E Árnasonar. Þar réðu þá ríkjum Árni Björnsson og Sveinn Jónsson, stór-KR-ingur, báðir öndvegismenn.
Fór þaðan í Ríkisendurskoðun, vann þar hjá Halldóri V. Sigurðssyni, ríkisendurskoðanda, öðrum öndvegismanni. Vann þar í um það bil eitt og hálft ár, en þá hafði samband við mig Ragnar J. Ragnarsson og vildi fá mig til starfa hjá Tékkneska bifreiðaumboðinu. Við Ragnar kynntumst fyrst þegar ég var sendur frá endurskoðunarstofunni til að bóka fyrir Tékkneska bifreiðaumboðið, fyrst meðan félagið var með aðstöðu í Vonarstræti, og svo í Auðbrekku, eftir að fyrirtækið flutti þangað. Við Ragnar vorum báðir í Íslensku plastmódelsamtökunum, hann með flugdellu og ég með bíladelluna.
Tékkneska bifreiðaumboðið hlaut nýtt nafn skömmu eftir að ég byrjaði þar og fékk nafnið Jöfur hf. Þar vann ég mig upp úr bókarastarfi í framkvæmdastjórastarf, og við Ragnar vorum tveir eigendur að félaginu undir lok minnar tíðar þar. Árið 1991 var samdráttarskeið í þjóðfélaginu og gamanið farið að kárna í bílaviðskiptum, og ég hætti störfum þar árið eftir.
Jöfurskaflinn stóð í sextán ár, og var bæði erfiðasti kaflinn og besti kaflinn peningalega, ég var ýmist blankur eða með skítnógan pening, allt eftir því hvernig áraði í bílasölu. Ég lagði mig allan fram, sérstaklega framan af, og fjölskyldan leið fyrir það.
Eftir að ég hætti í Jöfur hf. vann ég svo sjálfstætt við bókhald og reikningsskil fyrir ýmsa aðila, þar til forráðamenn Þema ehf. fengu mig til starfa í lok árs 1999, en Steinunn var þá komin þar til starfa.
Hún hafði verið að vinna með mér við bókhald, og fór á bókaranámskeið og réð sig svo til Þema ehf. og fyrir þau tengsl komst ég þar að seinna, fyrst sem verktaki, svo starfsmaður. Stofan fékk nafnið Grant Thornton endurskoðun ehf. eftir samninga við erlenda endurskoðunarstofu.
Ég hélt mér myndi aldrei ganga að komast í samband við konu, en áður en námi í Verslunarskóla lauk, hitti ég Rannveigu Karlsdóttur, trúlofaðist henni 1966 og við giftum okkur 1967.
Við Rannveig hittumst í Silfurtunglinu haustið 1965, ég var ökumaður kvöldsins, en Þórður, Bibbi og Sævar – allt æskuvinir úr Smáíbúðahverfinu – voru þar að skemmta sér.
Saman eignuðumst við Rannveig þrjú börn, Brynhildi, Helgu Lilju og Brynjólf Gísla.
Rannveig féll skyndilega frá árið 1981, aðeins 32 ára gömul. Við vorum nýkomin heim úr ferð til Bandaríkjanna, Bimma var nýfermd, og við höfðum stuttu áður keypt okkur hús í Hrauntungu sem Högna Sigurðardóttir teiknaði, en Rannveig náði aldrei að flytja þangað inn með mér.
Seinni konan, Steinunn Þórisdóttir, starfaði á þessum tíma sem einkaritari Ragnars í Jöfur hf., byrjaði þar skömmu eftir að ég hóf þar störf, en hafði unnið þar áður. Hún þáði boð um að verða mér samferða – og giftum við okkur árið 1985.
Ég erfði Kjartan sem fylgdi henni – og saman eigum við Steinunn tvö börn, Eyjólf Karl (Adda) og Þóri Örn.
Dellur hafa hrjáð mig frá fyrstu tíð, bíladellan þó verst þeirra, eins og þessar síður bera með sér.

Leave a Reply