Eyjólfur Brynjólfsson

Myndir og myndbönd úr safninu mínu

06 – 58 Opel

Þegar ég var að koma minni fyrstu íbúð upp að Engjaseli 13, var ég enn við nám í endurskoðun og starfaði hjá Endurskoðunarskrifstofu Björns E Árnasonar. Einn af starfsmönnum þar (Theodór) hafði veður af þessum bíl sem stóð í bílskúr við Mímisveg og eigandinn hét Pétur – kallaður Pétur í Vattarnesi. Ég heimsótti hann, sem var mikið sérstök upplifun. Hann var nokkuð aldraður þegar þarna var komið, og ég beið drjúga stund eftir því að hann kæmi til dyra, og ég tók eftir að hann hélt á lyklakippu með all mörgum lyklum. Ég skoðaði bílinn, og var hann ekki ekinn nema um 42 þús. kílómetra að því að mig minnir, leit vel út, nema hvað örlítið ryð var í afturbrettum aftan við hjól. Einnig var á honum beygla í húddi. Ég gerði honum tilboð sem mig minnir að hafi verið 32 þús. staðgreitt. Þá var mér boðið inn til hans, og þá skildi ég af hverju hann hafði verið seinn til dyra. Ég held að hann hafi þurft eina sex lykla til að opna dyrnar inn í hans íbúð, smekklásar, hengilásar og hefðbundnir lásar. Hann gekk frá kaupsamningi sem var álíka fyrirferðarmikill og kaupsamningar um fasteign voru í þá daga, og ég man að meðal annars var tekið fram hvað mikið bensín var á honum.
Gróa á Leiti sagði einhverjar sögur af því að þessi Pétur hefði verið staðinn að því að sitja um og gægjast á glugga hjá fegurðardrottningu (kallað eltihrellir í dag), hvað sem til er í því.

Bíllinn var ekki á skrá þegar ég keypti hann, og ég fékk athugasemd “Boddý” vegna ryðs í afturbretti þegar ég reyndi að fá skráningu lífgaða við. En skráning tókst eftir að ég hafði “sponnað” í það. Hann var eins og nýr að innan, en það tók mig góðan tíma að ná upp á honum glans, hafði væntanlega ekki verið bónaður mjög oft – en hann stóð sig vel, og kom sér vel meðan ég var að byggja.

Ég seldi hann svo Eyjólfi Karlssyni, bróður Rannveigar eftir að ég byrjað að vinna hjá Tékkneska bifreiðaumboðinu, man svo eftir að hafa séð af honum myndir í Rallye Cross keppni.

6 – 58 Opel