Eyjólfur Brynjólfsson

Myndir og myndbönd úr safninu mínu

7 – 1955 Ford Crown Victoria

From Fornbílar – video
55 Crown Victoria

Þegar ég var gutti á reiðhjóli í Smáíbúðahverfinu, þá fylgdumst við strákarnir sem þar vorum sérstaklega vel með amerískum bílum, enda voru þeir ekki svo margir á götunni þá, og flestir voru þeir leigubílar. Okkur þótti eina Crown Victorian sem kom ný til landsins nokkuð sérstök, kölluðum hann 55 Fordinn með aukalistann, en hún var rauð og hvít. Svo hvarf hún, og sást ekki í nokkur ár.

Svo var það einu sinni þegar ég var að vinna í Malbikunarstöðinni, þeirri eldri, sem var við gömlu Ártúnsbrekkuna, að ég sé hann koma niður brekkuna. Seinna frétti ég að hann hefði verið á Akureyri, en var keyptur til Reykjavíkur á þessum tíma.

Ég man að ég krotaði oft á ýmis blöð myndir af Crown Victoria, m.a. í námsbækur þegar ég var í Verslunarskólanum.

Þegar ég efnaðist (eða ofmetnaðist) á Jöfursárunum, ákvað ég að semja við Gary Richards í California og biðja hann að finna fyrir mig einn góðan, og gera hann upp frá grunni. Guðmundur Bjarnason, Fornbílaklúbbsmeðlimur og starfsmaður hjá mér í fyrirtækinu þekkti vel til Gary, og Gary hafði útvegað nokkra bíla sem hingað komu.

Gary fann bíl, við sömdum um heildarverð, sem skyldi vera 20 þús dalir, og Gary fór af stað. Eins og sést af myndum sem hér fylgja, var hann rifinn í frumeindir, og byggður upp frá grunni. Gary málaði grindina, hásinguna og frambitann í fyrstu umferð, en lenti í vandræðum þegar eitthvað þurfti að skrúfa, eða festa við þau stykki, og endaði með að nylon húða (Powder Plating) alla þessa hluti og meira til. Gary viðurkenndi eftirá, að hann hefði ekki gert sér nokkra grein fyrir því hvað miklu munaði að gera bíl upp á þennan hátt (100% leiðin), á móti venjulegri klössun sem hann margoft hafði unnið (sem hann kallaði 80% leiðina). Hann fór fram á viðbótargreiðslu, viðurkenndi fúslega að mér bæri engin skylda til þess að greiða meir en umsamið verð, en ég sendi honum tvö þús dali aukalega.

Tollverðir áttu erfitt með að kyngja því að um væri að ræða notaðan bíl, og héldu því fram að hann væri nýr. Þurfti að sýna þeim myndir af uppgerðinni til að sannfæra þá, og hann var svo tollaður í Hafnarfirði, og kom heim í Blikanes í júlí 1990.

Samdráttur ríkti í þjóðfélaginu á þeim tíma sem hann kom til landsins, og eins og venja er í kreppu hrundi sala á nýjum bílum. Ekki löngu eftir að hann kom til landsins, ákvað ég að yfirgefa Jöfur og Asiaco ævintýrið fór líka fjandans til á sama tíma.

Því var lítill tími og enginn vilji til að njóta þess að eiga hann, auk þess að maður tímdi varla að hreyfa hann. Stefán Ólafsson (Crawford hurðir), keypti hann af mér, og borgaði m.a. með tveimur vélsleðum. Við höfðum miklu meira gaman af þeim en bílnum. Stefán keypti svo líka af mér Wurlitzer jukeboxið.