Eyjólfur Brynjólfsson

Myndir og myndbönd úr safninu mínu

2 – 1959 Thunderbird

From Fornbílar – video
59 Thunderbird

Eftir að ég byrjaði að vinna hjá Tékkneska bifreiðaumboðinu, sem fékk svo nafnið Jöfur hf., tóku við margar viðskiptaferðir, m.a. til Bandaríkjanna. Árið 1980, í einni ferðinni með Ragnari þangað, tók ég hann með mér á sýningu Thunderbird klúbbs í Pennsylvania, en ég var meðlimur í þeim klúbbi á þessum tíma. Við höfðum m.a. verið að heimsækja framleiðanda sólaðra dekkja í Harrisonburg Virginia (Ray Carr Tires). Á sýningunni hitti ég John Pizzi, og kom í ljós að hann átti heima hjá sér 59 Thunderbird blæjubíl, sem þá var efstur á vinsældalista hjá mér. Við Ragnar renndum svo við hjá honum á Lippincott Avenue, Maple Shade, New Jersey, til að skoða gripinn. Samið var um 1.500 dollara greiðslu, og John tók að sér að koma honum til hafnar í Norfolk Va., en þar var Eimskip með móttöku.
Ég fékk sitt hvað af dóti með honum, og John var jafnframt hjálplegur eftir að bíllinn var kominn heim, t.d. útvegaði hann mér nýja blæju á hann ofl.

Á þessum tíma voru innflutningshömlur og gjaldeyrishöft, og þurfti kjánalega bakaleið til að koma bílnum til Íslands. Brasi, bróðir Rannveigar, var þá við nám í flugvirkjun í Tulsa Oklahoma, og tók að sér að leppa kaupin, og var bíllinn fluttur í hans nafni heim. Brasi stóð sig líka vel í því að hjálpa til með kaup á varahlutum eftir að bíllinn var kominn heim.
Heilmikið gerði ég við bílinn, reif hann niður nánast í frumeindir, nýja sílsa þurfti hann og fleira. Ég keypti undir hann TruSpoke teinafelgur, og helling af öðrum hlutum, og svo blæjuna, eins og áður var nefnt. Hann fékk nýja klæðningu, ný teppi, nýtt í skottið, og sitthvað þurfti að króma. Rannveig valdi á hann bleika litinn, þó aldrei auðnaðist henni að sjá hann eftir að hann var málaður. Þegar TruSpoke felgurnar komu, kom í ljós að þrjár þeirra voru með 5 boltagötum, en ein bara með fjórum. Var þá brugðið á það ráð að fá Baldur Hlöðvers (verkstæðisformaður hjá mér í Jöfur) til að bora þá felgu, og mig minnir að Guðmundur Bjarna hafi hjálpað til. Ég átti oft stafla af bjórkössum í kjallaranum í Jöfur á þessum tíma sem ég verslaði af smyglurum, og Baldur og félagar fengu að ganga í staflann meðan verkið var klárað. Hvort sem bjórnum er að þakka eða einhverju öðru, tókst svo ljómandi vel til, að aldrei skalf felga undir honum.

Til gamans má geta þess, að nokkrum árum eftir að ég hitti John Pizzi fyrst, átti ég leið um svæðið, væntanlega árið 1983, og þá með mér Steina, Binni Gísli og Kjartan. Renndi ég þá við hjá honum og færði honum eintak af blaði Fornbílaklúbbsins, með mynd af bílnum á forsíðu.

Hann vakti mikla athygli, bæði í akstri og á sýningum, og fórum við á honum í allmargar ferðir með Fornbílaklúbbnum, svo og á rúntinn. Eitt kvöld að vetrarlagi fórum við á honum á rúntinn við Hilmar og Halli (báðir vinnufélagar mínir og störfuðu í söludeild Jöfurs), áður en blæjan var komin á hann, í brunagaddi. Hafði lögreglan sérstaklega gaman af að sjá okkur skjálfandi af kulda í bílnum. Í annað skipti var ég með Steinu á rúntinum og Adda í burðarrúmi í aftursætinu. Við heyrðum álengdar í ungum konum sem sögðust gjarna vilja vita hvers konar maður æki svona bíl, og hneyksluðust mikið þegar þær sáu burðarrúmið og sögðu: “þetta er bara fjölskyldumaður”!

Þegar kreppti að lét ég hann frá mér eins og alla hina, og Jóhann Oddgeirsson, kallaður Jói í Ryðvörn, keypti hann af mér, en seldi hann síðar. Enn má sjá hann á bílasýningum, og er ekki annað að sjá en að hann sé í góðu standi.