Eyjólfur Brynjólfsson

Myndir og myndbönd úr safninu mínu

9 – 1969 Dodge SuperBee

69 Dodge SuperBee

Hann var á rúntinum í Reykjavík þegar ég sá hann fyrst. Stefán Árnason, frægur Holtari var undir stýri, en hann flutti hann inn frá Ameríku. Stefán var þá enn að vinna hjá Loftleiðum í New York ef ég man rétt. Þegar við bjuggum á Holtinu, bjó Stefán á Fálkagötu 8. Hann er á svipuðum aldri og Óli bróðir, og Óli fékk stundum það hlutverk að koma honum með sér í skólann, en hann virtist hafa átt erfitt með að koma sér af stað á morgnana.

Stefán vakti ungur athygli á Holtinu, meðal annars fyrir að koma fyrir sláttuvélamótor í kassabíl, líka fyrir að fá “lánaða” bíla á bílastæðinu við Trípólíbíó meðan fólk var þar að horfa á kvikmynd. Seinna varð hann frægur fyrir að stinga lögguna af á Skoda Oktavia, sá bíll var blár man ég. Ég var að rölta á rúntinum þegar Stefán mætti þar á bílnum og parkeraði á bílastæði sem var á horninu á Kirkjustræti og Tjarnargötu. Þar beið hann eftir löggunni, því búið var að taka af honum bílprófið. Hann flaggaði þá alþjóðlegu ökuskírteini, en þeir samþykktu ekki að það nægði, og hann misst það líka. Á þeim tíma sem hann var hjá Loftleiðum, “útvegaði” hann varahluti frá Ameríku, og flutti auk þess nokkra bíla til Íslands.

Guðmundur Einarsson, fyrrum bekkjarbróðir minn í Versló, starfaði hjá Loftleiðum í New York á sama og Stebbi, og sagði mér eftirfarandi sögu af honum: Hann var kallaður til lögreglu, og settur þar fyrir framan sjónvarpsskjá og látinn horfa á upptökur af honum við “útvegunarstarf”. Honum var gefinn kostur á að yfirgefa New York ríki, og koma aldrei aftur, eða fara í fangelsi. Hann kaus að fara til Íslands. Með sögunni fylgdi að hann hefði reynt seinna að komast til New York, en lögreglan hefði mætt úti í flugvél, og hlekkjað hann við sætið, og sent hann til baka. Skrautlegar sögur eru líka til af honum tengdar flugvélum, en látum þetta nægja hér.

Ég eignaðist bílinn í skiptum fyrir Chrysler 300, sem Kalli sprautari keypti af mér. Ég dundaði eitthvað smálegt við hann, jarðtengdi afturljósin sem virkuðu ekki rétt, en Dóri, tengdasonur, yfirfór vélina og skipti um undirlyftur og pústpakkningu.