Eyjólfur Brynjólfsson

Myndir og myndbönd úr safninu mínu

1 – 1934 Ford Victoria

https://goo.gl/photos/2FTQCGRLyLsq3SvQ8

From Fornbílar – video

Fyrsti fornbíllinn sem ég eignaðist var 1934 Ford Victoria. Þegar flugvéladellan vék fyrir bíladellunni sökkti ég mér í bílablöð og bílamódel, og heimsótti oft bókasafn á vegum sendiráðs Bandaríkjanna sem þá var á Hótel Sögu. Ég hafði dáðst að laginu á 34 Ford, og fannst þriggja glugga Coupe bíllinn eitt fallegasta form sem ég hafði séð á bíl. Mér tókst að smita æskufélaga minn Sævar af dellunni, og saman auglýstum við eftir “Gamla Ford” í Mogganum í ágúst 1969. Við fengum ýmsar hringingar, m.a. frá mönnum sem vildu leiðrétta okkur, því “Gamli Ford” væri ekki 34 árgerð, heldur sögðu menn ýmist að T-Ford, eða A-Ford væri hinn eini sanni “Gamli Ford”.
En einn þeirra sem hringdi var Guðmundur Kristjánsson og hringdi hann frá Flateyri. Hann sagðist eiga 34 Ford “sportútgáfu”. Fór fiðringur um okkur Sævar, og ég hafði samband við Pétur Ársælsson sem var með einkaflugmannspróf og átti hlut í lítilli fjögurra sæta Cessna vél. Ég kynntist Pétri þegar ég vann hjá Birgðastöð Reykjavíkur og Trésmíðastofu Reykjavíkur, en pabbi hans var þar að vinna sem verkstjóri, og Pétur hjá Áhaldahúsi Reykjavíkur. Pétur flaug okkur vestur í Önundarfjörð, og þar var flugbraut sem var handan fjarðarins á móti Flateyri. Við náðum að húkka okkur far yfir á Flateyri, hittum Guðmund, sem sýndi okkur gripinn þar sem hann stóð á leikvellinum í þorpinu. Þó ekki væri þetta þriggja glugga Coupe, heldur Victoria, og einhverjir hefðu hrökklast frá við að sjá hana þarna, var þetta ást við fyrstu sýn. Samið var við Guðmund um verð og greiðslu – og að hann myndi sjá til þess að hún færi með strandferðaskipi til Reykjavíkur.
Strax og hún kom í bæinn, prófuðum við að hella bensíni í blöndunginn, keyptum 300 krónu rafgeymi í Síðumúlanum, og þó hún hefði staðið í einhver ár á róluvellinum á Flateyri, datt hún í gang.
Við Sævar lögðumst svo í vinnu við að gera hann betri, rifum hann niður, skröpuðum alla málningu af honum, og mikið var sponnað og steypt og svo grunnað yfir með blýmenju. Við fengum þó góða menn í erfiðustu málin, stráka sem ég þekkti frá “bæjarvinnunni”, Kalli Sigurðs sá t.d. um að sjóða hásingu af 59 Ford pickup (fann þann bíl úti á Kársnesi) á upprunalegu stífurnar, og Gvendur Ottósson aðstoðaði við réttingu og ryðbætur. Báðir voru þeir að vinna þá hjá Vélamiðstöð Reykjavíkur. Ég pantaði sitt hvað af dóti frá Sears, J.C. Whitney ofl. í USA. Við gerðum þó fyrst tilraun til að hafa samband við Ford umboðin hér, bæði í Reykjavík og á Akureyri, en græddum ekkert á því.
Fyrstu mánuðina var hann í bílskúrnum hjá pabba Sævars, og áhuginn var svo mikill, að oft hljóp ég á kvöldin úr Kópavoginum yfir í Akurgerði til að vinna með Sævari þar, og svo til baka. Við fluttum hann svo í leiguskúr við Háteigsveg, og áfram var brallað þar við lélega aðstöðu. Eyfi Karls, bróðir Rannveigar, átti þá mótorhjól sem ég fékk nokkrum sinnum lánað til að komast þangað. Þrjár myndir má sjá úr þeim skúr þar sem hún er án hurða og innréttingar.
Ég pantaði Candy Apple Burgundy málningu frá USA, og fékk Hjöbba frænda til að mála. Sjálfur hafði ég málað nokkur bílamódel með Candy Apple málningu, og reyndi að útskýra fyrir Hjöbba hversu krítískt væri að jafn þykkt lag færi á hann (yfir gullbrons lit), en það hefði mátt lukkast betur.
Við keyptum tvo stóla úr DC-4 flugvél sem fór fram af flugbraut út í Skerjafjörðinn, ég sagaði aftursætisbakið og setuna úr krossvið, teiknaði klæðninguna, og fékk Alla “klæðara” til að sauma hana.
Ef vel er skoðað á fyrstu myndum af henni, sést að búið var að leggja trefjaplast yfir strigaþakið, lausnin okkar varð sú að saga allt í burtu og setja grænt plexiplast í þakið.
Eftir ýmislegt brölt tókst okkur að koma henni á götuna árið eftir.
Auk dellunnar sjálfrar, var okkur kappsmál að flýta okkur, því með næsta skipi á eftir frá Vestfjörðum, kom 36 Ford sem áður var í eigu augnlæknis í Reykjavík. Sá var mun betur á sig kominn en okkar bíll. Einar Gísla (nú þekktastur fyrir ET bíla), sem mér skilst að hafi verið tengdur augnlækninum ættarböndum átti bílinn, og á hann enn. Pabbi Einars var Gísli Blöndal, bílstjóri á vörubíl sem ég kynntist lítillega þegar ég var í Malbikinu. Síðast þegar ég vissi, var ekkert farið að eiga við þann bíl. Til gamans má geta þess að rétt eftir að ég keypti 56 Ford af Gúnda Baskerville, lenti ég í kappakstri við Einar í miðbænum, hann á Opel Kapitan þá. Hann var í stuttu máli snarbrjálaður undir stýri.
Við keyrðum hana fyrst með flathead vélinni, en það tilheyrði á þessum tíma að setja Chevrolet vél í Ford Street Rod, og tókst mér að finna 265 cubic vél með sjálfskiptingu, og aftur var Kalli Sig kallaður til og sá um að útbúa mótorfestingar til að koma henni fyrir.
Flathead vélarnar eru ódrepandi, og áður en við settum í hana 265 vélina gerðum við meira að segja tilraun til að eyðileggja flathead-inn með því að hella vatni í olíuáfyllinguna, en ekki tókst að bræða úr honum, og við hentum mótornum á endanum, fórum með hann í VW rúgbrauðinu hans Sævars upp í Blesugróf, og skutluðum honum þar út.
Við vorum í vandræðum með pláss fyrir hana fyrst eftir að hún var klár, ýmist var hún fyrir utan hjá mér (þá í Akurgerði 26) eða í sundinu í Grundó, en svo leigðum við skúr fyrir hana við Háaleitisbraut 20, og þar var hún þangað til ég flutti hana í Jöfur. Við höfðum veður af því að bílskúr væri til leigu á þessum stað, og fórum strax að hitta hana Guðlaugu, sem þar réði húsum, en vissum ekki af því að hún hafði sett auglýsingu í Dagblaðið sama dag. Sá sem tók við pöntuninni hafði ætlað sér að koma um kvöldið, og gerði það, nema að við urðum nokkrum klukkutímum fyrri til.
Hjöbbi fékk aftur það hlutverk að mála hana árið 1979, og nýsprautuð fór hún á sýningu í Laugardalshöllinni. Í þetta sinn varð fyrir valinu grænn litur með gulllitu polychrome. Þá var ég búinn að kaupa 350 Blazer vél af Páli Stefánssyni (einn Rafiðju bræðra), en hann var að setja dísil vél í þann bíl. 350 vélin var það kraftmikil að gamla sjálfskiptingin sem fylgdi 265 vélinni gaf sig, og skipti ég henni út seinna.
Þegar ég var farinn að ráða hlutum á vinnustað (Jöfur hf.), flutti ég hana þangað, og þar var hún geymd þangað til hún var seld þegar kreppti að.
Það var svo fyrir tilviljun árið 2011 að Bjarni nokkur, kunningju Sigurbjarnar úr Fornbilaklúbbnum, var að horfa á mitt video um Victoriuna. Kom í ljós að hann hafði eignast varadekkshlífina og hringinn, sem hafði verið geymt inni í bíl sem hann eignaðist. Hann gaf mér þetta, og hlemmurinn hangir nú uppi á vegg hjá mér.