Eyjólfur Brynjólfsson

Myndir og myndbönd úr safninu mínu

Kanaríeyjaferð 1977

Ég byrjaði að starfa hjá Tékkneska bifreiðaumboðinu 4. júlí 1976. Skömmu eftir að ég byrjað þar var nafni félagsins breytt í Jöfur hf. að kröfu Alfa Romeo. Fljótlega kynntist maður ýmsu í viðskiptum, þar á meðal hvers kyns vöruskiptum, málverk á móti bíl ofl. Guðni í Sunnu var einn af þeim sem verslaði hjá okkur, og borgaði með farmiðum. Var mér boðið að nýta hluta þeirra fyrir mig og fjölskylduna, eins og hún var þá. Ragnar J Ragnarsson, þá forstjóri Jöfurs, fór líka með sína fjölskyldu í sömu ferð, og einn kunningi hans að auki. Harry var sá kallaður og var notaður í ýmis smá viðvik varðandi viðhald húsnæðis ofl.

Ég man að ég heillaðist af veðrinu og umhverfinu, en þótti margt miður, sérkennilegt að sjá ryðguð hnífapör í boði, og fleira í þeim dúr. Farið var af stað í desember 1977, og við dvöldum yfir jólin og áramót held ég líka.
Nýlega voru Bimma og Binni Gísli að rifja upp fremur skuggalegar minningar úr þessum ferðum, byrjum á frásögn Bimmu:

“Ég var að labba með Binna, man ekki nákvæmlega hvert við vorum að fara en finnst að við höfum verið á leið að kaupa eitthvað. Ég leiddi hann og í minni minningu er hann mér á hægri hönd en einhverra hluta vegna man Binni þetta spegilvent, hann var alla vega götumegin. Það kom bíll og renndi upp að gangstéttinni rétt fyrir framan okkur og út komu tveir menn. Þeir stóðu og hölluðu sér upp að bílnum og í því að ég er rétt komin framhjá labbar annar þeirra af stað og kemur upp að Binna og tekur í hendina á honum. Hann byrjar svo að reyna að leiða hann með sér til hliðar án þess að segja orð.
Ég leit á hann og togaði Binna að mér og jók hraðann og labbaði einbeitt áfram og hélt fastataki í hendina á honum. Maðurinn labbaði með okkur nokkur skref en stoppaði svo. Hann stóð og horfði á eftir okkur í smátíma en sneri svo við í áttina að bílnum. Ég man ekki eftir að hann hafi gefið frá sér hljóð allann tímann og það gerðum við Binni ekki heldur. Við löbbuðum svo áfram og beygðum út af götunni stuttu seinna.
Þetta tók örugglega ekki nema 1-2 mínútur allt saman.”
Það hvarflaði aldrei að mér að Binni myndi eftir þessu fyrr en hann nefndi þetta að fyrra bragði fyrir nokkrum árum. Ég er nokkuð viss um að ég hafði aldrei talað um þetta við hann í millitíðinni.”

Hér eru svo minningar Binna Gísla frá ferðinni – ekki síður dökkar:

“Við vorum að labba á gangstétt (stutt frá húsunum sem við vorum í) við hliðina á umferðargötu. Bimma var hægra megin við mig og ég götumegin (eins og ég man þetta). Lítill sendibíll (líkur þessum í minningunni (sjá mynd neðar) stöðvaði við vegkantinn og út steig maður. Hann kom brosandi og vingjarnlegur upp að mér og ég horfði á hann. Hann tók í vinstri hendina á mér og reyndi að leiða mig í átt að bílnum. Bimma togaði fast á móti og fljótlega sleppti hann takinu. Við gengum hratt áfram og tókum hægri beygju upp á gras og hlupum þaðan í áttina að húsunum. Ég minnist þess ekki að Bimma hafi viljað að við héldum þessu leyndu. En ég mundi alltaf eftir þessu og sagði Pálínu frá þessu fyrir mörgum árum. Ég rifjaði þetta upp við Bimmu fyrir nokkrum árum og hún var hissa á að ég mundi þetta. Það var mjög athyglisvert að minning mín var spegilmynd af því sem Bimma mundi.
Gæti t.d. bætt við sögunni þegar við tveir (hann á við mig, pabbann) fórum í bæinn á Kanarí og ég heimtaði að fá að fara í spilasal að fá að bíða á meðan þú fórst að kaupa eitthvað. Eftir að ég suðaði um stund þá gafstu eftir og lést mig fá pening í spilið og sagðir mér að bíða á staðnum (lagðir mikla áherslu á það). Að lokum þorði ég ekki í tækið (því einhverjir eldri strákar voru þarna og ég varð eitthvað feiminn) og fór út að leita að þér. Ég man eftir að hafa verið hágrátandi (talsvert lengi í minningunni) og vafraði um gangstéttina í verslunargötunni. Tvær unglingsstelpur komu til mín og reyndu að hugga mig, en ég skildi þær ekki og þær ekki mig. Að lokum sá ég þig í gegnum mannþröngina og hljóp eins hratt og ég gat upp í fangið þitt.”

Leave a Reply