Eyjólfur Brynjólfsson

Myndir og myndbönd úr safninu mínu

Bimma

Bimmsan er elst – fædd 16. júlí 1967.  Alvörugefin – en glaðvær, og fljótt kom í ljós hvað hún er bráðskýr.  Allt getur hún lært – eins og hún sé með eitthvað lím í heilanum – því allt man hún og átti auðvelt með allt nám.
Hún fékk stóra hjartað frá mömmu sinni, en kannske tækjadelluna frá mér.
Hún dvaldi í Equador eitt ár sem skiptinemi, og byrjaði í Versló, en hætti við, því hún vildi verða læknir.
Hún bjó í Svíþjóð, orðin skurðlæknir og kvensjúkdómalæknir og ábyggilega eitthvað meira sem ég man ekki.

Svo flutti hún til Noregs, er þar orðin yfirlæknir við Radiumhospitalet í Osló.
Hennar kall er Dóri, sem lærði verkfræði í Svíþjóð og starfar nú við sitt fag í Noregi, og hún á Snorra og Rannveigu Maríu.


Bimma giftir sig 24. júní 2014 – ég flutti smá ræðu:

Kæru brúðhjón, góðir gestir.

Mér var uppálagt að segja nokkur orð, ég bið ykkur að afsaka að þetta kemur mest Bimmu við, en ég læt öðrum eftir segja eitthvað um Dóra á eftir.

En það var fyrir nokkrum árum (nánar tiltekið 16 júlí 1967) skutlaði ég Rannveigu á Fæðingarheimilið við Eiríksgötu, og fór svo beint í bíó með æskuvinunum Bibba og Sævari. Svona var maður þá, hugtakið mjúkir menn var ekki til í þá daga, nema um menn í góðum holdum.

Við fórum í Háskólabíó, og ég kíkti í Moggann frá þessum tíma og sá að myndin heitir „Ekki er allt gull sem glóir“ – og var í Cinemascope. Rannveig sagði mér að hún hefði látið hringja þangað, til að biðja um að láta kalla mig upp, en starfsmenn neituðu – svo ég gat klárað myndina. Ég man ekkert eftir myndinni, en hún hefur sjálfsagt varla verið byrjuð þegar Bimma kom í heiminn.

Námskeið fyrir verðandi feður voru ekki til í þá daga, og ég var krakkabjáni þá (og sýni enn ekki mikil þroskamerki). Ekkert vissi ég hvernig ég átti að vera henni góður pabbi, frekar en hinum börnunum. Ef ég var ekki í skóla eða að vinna, var ég að vinna í bílunum mínum – en sem betur fer átti hún frábæra mömmu.

Það kom fljótt í ljós að frumburðurinn var bráðskýr og að hún fékk einhvern aukaskammt af límefni í heilann. Ég hef kannske sagt ykkur öllum söguna af Dagfinni dýralækni, en það er bók sem hún heimtaði að ég læsi fyrir hana fyrir svefninn. Í hvert skipti sem ég fletti blaðsíðu, greip hún í bókina hjá mér og vildi hún sjá nýju blaðsíðuna, og eftir nokkur skipti „las“ hún bókina fyrir mig, og fletti á réttum stöðum. Hún var líklega fjögurra ára þá, og við vorum flutt úr kjallaranum í Melgerði 29 í Akurgerði 26. Með svona heilabú var ekki við öðru að búast en frábærum námsárangri, hvort sem var hér á Íslandi, Equador – eða í Svíþjóð.

En hún fékk líka í vöggugjöf vænan skammt af umburðarlyndi og umhyggjusemi, hvort tveggja frá mömmu sinni. Eftir að hún eignaðist litla systur, veitti henni ekki af umburðarlyndinu, því litla systir valtaði yfir hana og tók hana oft ansi föstum tökum – en aldrei tók Bimma á móti.

Umhyggjusemin kom líka vel í ljós gagnvart litlu systur og svo bræðrum sem bættust í fjölskylduna.

Hún þurfti fljótt að læra að bjarga sér sjálf, og ég held ég muni rétt, að þegar við vorum flutt úr Akurgerði í Efstasund, þá fór hún oft með litlu systur í strætó í bæinn, og trúlega ekki nema sjö ára þá.

Það hefur verið sagt að þegar maður eignast son, hefur maður áhyggjur af einum strák, en þegar maður eignast dóttur – hefur maður áhyggjur af öllum strákunum. Það átti sannarlega við hjá mér, því enginn strákur var samboðinn mínum dætrum. Ég bara styrktist í því áliti þegar hún fyrst dró Dóra með sér til okkar. Ég skildi ekkert hvað hún sá við þennan (durg) sem svaf í tíma og ótíma, illa snyrtur og verr til fara.

Hún hefur líklega verið efins sjálf, því það tók hana 25 ár að ákveða sig, eða gera hann að manni, hvort heldur sem er – og hann er bara nokkuð snyrtilegur í dag.

Hennar foreldrar og forfeður – hennar uppvöxtur og umhverfi – gera hana að því sem hún er í dag og við erum öll montin af henni, ekki síst Binni afi, sem alltaf talaði um að hún bæri af öllum hans barnabörnum.

Í hálfgerðu gríni að honum hnoðaði ég saman þennan leir:

Bimmsan af öðrum börnum ber
og brosir út að eyrum
Bráðum hún doktor orðin er
í þrem eða fjórum greinum

Við óskum þeim báðum til hamingju með „loksins“daginn – Skál.


Leave a Reply