Eyjólfur Brynjólfsson

Myndir og myndbönd úr safninu mínu

02 – Í gamla daga

Ég fæddist uppi í risinu í húsinu hans afa að Smyrilsvegi 28 á Grímsstaðaholtinu. Þar fæddust fjögur okkar systkina – Helena fædd áður að Smyrilsvegi 29, og Dagný eftir að við fluttum í Grundargerði 6. Gólfflöturinn í risinu á Smyrilsvegi hefur kannske náð 30 fermetrum ef allir krókar og kimar voru mældir – og allt undir súð. Þarna sváfum við öll, einhver á bedda, en flest á flatsængum á gólfinu, en klósett var ekki þarna uppi, hvað þá baðaðstaða.
Margar minningar á ég frá því við bjuggum á Holtinu, sumar góðar, en aðrar ekki. Þegar ég var kornungur, man ég eftir að hafa verið haldinn meltingartruflunum og hægðatregðu. Dúna frænka sagði mér að ég hefði haldið utan um stóran magann sem smábarn og sagst vera að passa fótboltann minn (Friðrik Einarsson, þvagfæraskurðlæknir, nefnir aftur fótbolta í sjúkraskýrslu 1959).
Jónas Sveinsson læknir var þá stjörnulæknir landsins, og mamma hafði mikið dálæti á honum. En þegar hún fór með mig til hans, sagði hann henni að gefa mér perubrjóstsykur. Sennilegast hef ég verið með einhvers konar mjólkurofnæmi, sem hefur stíflað meltingarveginn.
Þegar seinna var farið með mig til læknis vegna þess að ég borðaði lítið og helst aldrei fisk, voru ráð stjörnulæknisins að kaupa Salat Dressing.
Lífið fram að fermingu var erfitt, ég alltaf minnstur allra og eilíflega veikur, meltingarfærin sífellt að angra mig, og svo kom í ljós seinna enn alvarlegra mál, sem sennilega hefur hrjáð mig frá fæðingu. Því vandamáli eru gerð skil í umfjöllun um Spítalavistina 1959.
Mamma virtist hafa skynjað að ég var fljótur til að læra, og áður en skólaganga byrjaði fékk hún frænda sinn Björn til að kenna mér að lesa. Hann var alltaf kallaður Bjössi bóndi af fjölskyldunni, var úr Garðinum eins og margt frændfólk mömmu, en flutti seinna í Akurgerði 13, skammt frá þar sem við bjuggum í Smáíbúðahverfinu eftir að við fluttum þangað 1953. Til gamans má geta að Guðríður Matthildur (Gurra), kona Sverris bróður, flutti þangað með pabba sínum, eftir að Bjössi bóndi seldi.

Á Grímsstaðaholtinu voru margir skrautlegir karakterar á þessum árum, fyllibyttur og misindismenn innan um ágætis fólk. Frægir urðu bræðurnir Robbi og Bóbó, skrifaðar um þá bækur, og leikrit eftir bókunum sett upp. Seinna var svo kvikmyndin Djöflaeyjan gerð eftir bókunum, en einn af mínum gömlu bílum kom þar við sögu.
Sitthvað af myndum af okkur systkinum kom í ljós þegar við tókum til í gömlum gögnum í Grundargerði eftir að mamma dó. Ég hef skannað eitthvað af þeim og hef dreift þeim m.a. á Facebook og meðal okkar systkina.  Hér ætla ég að reyna að safna því saman sem til er af gömlum myndum af mér.
Það sem helst situr eftir í minningunni frá þessum árum eru veikindi, nóg fékk ég að finna fyrir þeim á þessum árum.
Hér að neðan eru m.a. nokkrar myndir frá fermingunni minni – hálf er ég veiklulegur þarna, enda kominn á spítala stuttu seinna, sjá nánar á annarri síðu.
Skólavist skilur ekki eftir sig ljúfar minningar, og í Melaskóla, Laugarnesskóla, Háagerðisskóla, Breiðagerðisskóla og í Víkingsheimilinu, fann ég mér felustaði í frímínútum, þar sem ég reyndi að fá að vera í friði. Það var ekki fyrr en nýlega að mamma sagði mér frá því að hún hefði sleppt mér við eitt skólaárið, væntanlega veturinn 1953-1954, þegar við fluttum í Grundargerði 6.
Mígreniköstin voru skæð á þessum tíma, og enduðu oft með uppköstum.












Leave a Reply